Rökkur er frumsýnd á föstudag

Þeir eru ekki einir

24.10.2017

Nokkrum mánuðum eftir sambandsslitin fær Gunnar símhringingu frá fyrrverandi kærastanum sínum, Einari. Hann er í miklu uppnámi og Gunnar er hræddur um að hann muni fara sér að voða og keyrir til hans upp í sveit þar sem hann hefur hreiðrað um sig í afskekktum bústað. Strákarnir gera upp samband sitt í bústaðnum en fljótlega kemst Gunnar að því að vandamálið er stærra en hann hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér ... þeir eru ekki einir.

Björn Stefánsson og Sigurður Þór Óskarsson fara með aðalhlutverkin í RÖKKRI. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Erlingur Óttar Thoroddsen, og þetta er önnur kvikmynd hans í fullri lengd. Erlingur framleiðir myndina einnig ásamt Baldvin Kára Sveinbjörnssyni og Búa Baldvinssyni. Sena sér um dreifingu á myndinni á Íslandi.

Í öðrum hlutverkum eru þau Aðalbjörg Árnadóttir, Guðmundur Ólafsson, Jóhann Kristófer Stefánsson og Anna Eva Steindórsdóttir. Myndin var tekin upp á Hellissandi og þar í kring.

Rökkur er frumsýnd á föstudaginn í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói, Akureyri.