Vetrarbræður er frumsýnd á mánudag

Löngun eftir því að vera elskaður og þráður

5.10.2017

Myndin segir frá tveimur bræðrum sem búa í einangraðri verkamannabyggð. Yngri bróðirinn lendir í ofbeldisfullum deilum við vinnufélaga sína þegar heimabrugg hans er talið ástæða þess að maður liggur við dauðans dyr. Stigmagnandi útskúfun hans í framhaldi þess reynir á samstöðu bræðranna en þegar eldri bróðirinn virðist hafa unnið ástir draumastúlku þess yngri fer óhefluð atburðarás af stað. Vetrarbræður er saga um skort á ást og löngun eftir því að vera elskaður og þráður. 

 

Með helstu hlutverk fara Elliott Crosset Hove, Simon Sears, Lars Mikkelsen (Forseti Rússlands í House of Cards) og Victoria Carmen Sonne.

 

Hlynur Pálmason er íslenskur listamaður og kvikmyndagerðarmaður fæddur 1984. Hann hóf feril sinn sem sjónlistamaður en hefur getið sér góðs orðs sem kvikmyndaleikstjóri síðustu ár í framhaldi þess að hann útskrifaðist úr Danska kvikmyndaskólanum árið 2013. Útskriftarmynd hans Málarinn (2013), með Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverki, var tilnefnd til Dönsku kvikmyndaverðlaunanna og vann verðlaun fyrir Bestu stuttmynd á bæði kvikmyndahátíðinni í Odense og RIFF hátíðinni í Reykjavík. Nýjasta stuttmynd hans Sjö bátar (2014) var heimsfrumsýnd í keppnisflokki Toronto kvikmyndahátíðarinnar og var tilnefnd sem stuttmynd ársins á Edduverðlaununum 2015.